Fyrirtíðarspenna (PMS)

Þó svo að oft sé gert grín að fyrirtíðaspennu er það raunverulegt heilkenni sem samanstendur af fjölda einkenna sem tengjast tíðahringnum. Einkennin geta verið líkamleg, tilfinningaleg og haft áhrif á hegðun þína en koma fram vegna hormónabreytinga sem verða í líkamanum eftir egglos og fyrir blæðingar. Þrjár af hverjum fjórum konum finna fyrir fyrirtíðaspennu. Einkenni fyrirtíðaspennu koma venjulega 3-5 dögum fyrir blæðingar og hætta 1-2 dögum eftir að blæðingar hefjast.

Ýmis einkenni tengast fyrirtíðaspennu, eins og pirringur, kvíði, geðdeyfð, sykurlöngun eða svefnvandamál. Einnig getur verið að þú verðir vör við líkamleg einkenni eins og uppþembu, ofnæmi, brjóstverki og bólur. Konur upplifa fyrirtíðaspennu á ólíkan hátt og ákveðin einkenni geta verið meira áberandi á ákveðnum lífsskeiðum.

Meðferð og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn fyrirtíðaspennu

Ekki er alltaf hægt að koma í veg fyrir fyrirtíðaspennu en það er ýmislegt hægt að gera sem hjálpar og dregur úr einkennunum.

Ákveðin atriði tengd lífsstíl geta verið góð fyrir sum einkenni fyrirtíðaspennu: að hreyfa sig, forðast streitu, borða hollan mat, forðast áfengi og sjá til þess að þú sofir vel eru þættir sem sumum finnst hjálpa.

Ef fyrirtíðaspenna hefur áhrif á daglegt líf þitt, er best að leita læknis til að fá ráðleggingar um úrræði eða meðferðir sem geta dregið úr einkennunum.

Streita og svefn

Vegna hormónabreytinga í líkamanum getur verið að þú finnir fyrir streitu og sért döpur þegar þú nálgast blæðingar. Reyndu að taka ekki of mikið að þér og biddu aðra um hjálp ef þú finnur að þú kemst ekki yfir eins mikið og þú ert vön. Það er nauðsynlegt að fá nægan svefn, að hreyfa sig reglulega og borða hollt til að hjálpa til við að minnka streitu og vera vel upplögð.

Það er dæmigert að hormónabreytingar sem þú upplifir á þessum tíma í tíðahringnum hafi áhrif á svefnmynstrið. Best er að draga úr neyslu áfengis þar sem áfengisdrykkja hefur áhrif á eðlilegt svefnmynstur og getur haft áhrif á gæði svefnsins. Regluleg líkamsrækt getur einnig hjálpað við svefninn, dregið úr streitu og hún leysir einnig úr læðingi endorfín sem hefur jákvæð áhrif á skapið.

Hvenær á að leita til læknis?

Ef breytingar á lífsstíl hjálpa ekki við fyrirtíðaspennu og einkenni hafa áhrif á heilsu þína og daglegar venjur, skaltu leita læknis til að fá ráðleggingar.

Top