Tíðahringurinn

Tíðahringurinn er ferli sem endurtekur sig reglulega í líkamanum frá fyrstu blæðingum fram að tíðahvörfum (lestu meira um tíðahvörf og breytingaskeiðið hér). Tíðahringurinn hefst á fyrsta degi blæðinga og nær fram að síðasta degi fyrir næstu blæðingar. Meðallengd tíðahringsins eru 28 dagar en hjá flestum konum er tíðahringurinn ekki svo reglulegur. Hann getur verið breytilegur, frá 28-32 dögum.

Við kynþroska (milli 10 og 16 ára aldurs hjá flestum konum) byrjar líkaminn að framleiða mismunandi magn ýmissa hormóna sem valda breytingum á líkamanum. Eftir því sem líður á tíðahringinn eykst smám saman magn kvenhormónsins estrógens og eggjastokkarnir byrja að þroska egg. Í hverjum tíðahring hefst þroskun allt að 20 eggbúa en aðeins eitt og stundum tvö þroskast í tilbúin egg sem eru tilbúin til að frjóvgast. Þegar eggið losnar (ferlið sem er kallað egglos) ferðast það niður í legið um eggjaleiðarana – pípurnar tvær sem tengja eggjastokkana við legið. Á sama tíma þykknar slímhúðin í leginu og líkaminn undirbýr sig fyrir frjóvgun.

Ef eggið hittir fyrir sáðfrumu, getur það frjóvgast og þungun orðið. Ófrjóvgað egg lifir aðeins í um 24 klukkustundir eftir egglos. Eftir það losar líkaminn sig við slímhúðina í leginu, slímhúðin blandast blóði og fer úr líkamanum um leggöng – blæðingar hefjast.

Blæðingar

Blæðingar geta staðið yfir í 1-8 daga, en meðallengd þeirra eru 4-5 dagar. Venjulega missa konur um 80 ml af blóði við einar blæðingar. Ýmsar getnaðarvarnir geta dregið úr blæðingum og stytt þær. Getnaðarvarnartöflur geta til að mynda hindrað egglos og valdið því að slímhúðin í leginu verði þynnri.

Tíðaverkir

Flestar konur fá tíðaverki nokkrum sinnum á ævinni. Tíðaverkir koma venjulega í upphafi blæðinga og standa yfir í 2-3 daga. Þeir geta lýst sér sem krampar í kvið og vægur verkur í baki og lærum.

Tíðaverkir koma vegna þess að legið dregst saman svo að líkaminn geti losað sig við slímhúðina.

Einfaldar lífsstílsbreytingar geta hjálpað til við að draga úr tíðaverkjum. Að huga að heilsu og hreyfingu allan tíðahringinn getur breytt miklu. Létt hreyfing getur hjálpað til við að draga úr verkjum og streitu. Einnig er hægt að reyna slökunartækni eins og nudd, nálastungur, hugleiðslu og jóga. Hiti hjálpar til við að draga úr alls kyns verkjum svo gott er að reyna heitt bað eða heita sturtu eða að leggja heitan klút/hitapoka á verkjasvæðið.

Til eru ýmis lyf sem fást án lyfseðils sem henta vel til að lina tíðaverki.

Hvenær á að leita til læknis?

Tíðaverkir eru algeng ástæða þess að konur leita til læknis - á hverju ári leitar ein af hverjum tuttugu konum læknis vegna vandamála tengdum blæðingum. Ef þú tekur eftir einhverju óvenjulegu í tíðahringnum eða þú tekur eftir milliblæðingum, skaltu leita til læknis. Almennt er ekki þörf á að hafa áhyggjur en þó er betra að vera viss.

Ef blæðingar hjá þér eru mjög miklar og sársaukafullar, ræddu það við lækninn, sem mun ráðleggja þér hvað hægt er að gera. Í sumum tilfellum mun læknirinn ávísa bólgueyðandi lyfjum eða leggja til að þú prufir að nota getnaðarvarnartöflur.

Þungun

Þú ert frjóust fimm dögum fyrir egglos og í einn til tvo daga eftir egglos en erfitt getur verið að ákvarða tímarammann og hann getur verið breytilegur milli kvenna. Ef þú ert að reyna að verða þunguð er best að hafa samfarir að minnsta kosti annan hvern dag. Sáðfrumur geta lifað í allt að sjö daga og reglulegar samfarir gera það líklegra að sáðfrumur séu til staðar við egglos.

Top