Tíðahvörf

Tíðahvörf eru eðlilegur kafli í lífi allra kvenna og upplifun kvenna af þeim getur verið mismunandi. Flestar konur taka eftir breytingum við tíðahvörf, með einkennum eins og þurrki í leggöngum og óreglulegum blæðingum. Það þýðir ekki að þú þurfir að segja skilið við heilbrigðan lífsstíl og þróttmikið kynlíf þar sem til eru ýmsir meðferðarmöguleikar við einkennunum.

Tíðahvörf hefjast þegar framleiðsla á kvenhormóninu estrógeni minnkar. Fyrir tíðahvörf stjórnar estrógen egglosi og blæðingum. Þegar framleiðsla estrógens minnkar af eðlilegum orsökum, hætta tíðablæðingar og egglos og þú færð ekki lengur reglulegar blæðingar.

Við upphaf tíðahvarfa koma blæðingar sjaldnar en áður og að lokum hætta þær alveg. Síðustu blæðingar koma að meðaltali þegar konur eru 51 árs, en sumar konur fara í tíðahvörf fyrr, um og eftir 40 ára aldur. Ef þú ert yngri en 50 ára og hefur ekki haft blæðingar í tvö ár ert þú talin vera komin í tíðahvörf en ef þú ert eldri en 50 ára ertu talin komin í tíðahvörf ef þú hefur ekki haft blæðingar í eitt ár.

Einkenni

Aðaleinkenni tíðahvarfa eru breytingar (venjulega minnkun) á tíðablæðingum. Hormónabreytingarnar geta einnig valdið öðrum einkennum svo sem hitakófi, þurrki í leggöngum, minnkaðri kynhvöt, skapbreytingum, svefnvandamálum og sýkingu í þvagleiðurum eða blöðrubólgu. Þar sem konur upplifa tíðahvörf á mismunandi vegu, eru einkennin ólík milli einstaklinga.

 

Meðferð tíðahvarfaeinkenna

Ýmsir meðferðarmöguleikar eru í boði. Þeir geta verið allt frá einföldum breytingum í matarræði og lífsstíl yfir í hormónauppbótarmeðferð sem ávísað er af lækni.

Hægt er að meðhöndla ákveðin einkenni. Ef þú finnur fyrir þurrki í slímhúð legganga, getur þú notað rakagefandi efni sem draga úr einkennum og veita raka, líka við samfarir. Einnig getur verið að lífsstílsbreytingar svo sem að borða hollari mat og hreyfa sig reglulega dragi úr einkennum.

Þar sem tíðahvörf eru mismunandi hjá konum getur verið erfitt að finna réttu leiðina. Ef þér líður illa getur þú leitað til læknis til að fá ráðleggingar um hvað getur gagnast þér.

Top